140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

staða sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórninni.

[15:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við erum vonandi að ræða um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra, ekki satt? Svo kemur hæstv. ráðherra hingað upp og þykist ekki bera ábyrgð á einstaka ráðherrum í eigin ríkisstjórn. Er nema von að ástandið sé með þeim hætti sem raun ber vitni? Er það virkilega rétt sem við heyrum að hæstv. forsætisráðherra gefi helstu stuðningsmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vítt og breitt um landið fingurinn í ræðustól? Fullyrðir hæstv. ráðherra að það sé bara bull þegar innanflokksmenn í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tala um að Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin geri nú þá kröfu á hendur VG að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, víki úr ríkisstjórninni? Er þetta bara eitthvert bull og hugarburður hjá innsta hring Vinstri grænna vítt og breitt um landið?

Fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra áðan að hún (Forseti hringir.) treystir sér ekki til þess að fella þann dóm um verk hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hún treysti verkum hans. Það er dapurlega komið fyrir þessari ríkisstjórn og ég held að það sé kominn tími til þess að hún fari frá.