140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

staða sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórninni.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þarf ég að ítreka það hér, þó að hv. þingmann langi mjög til að fá önnur svör, að það er alfarið mál Vinstri grænna hverjir eru ráðherrar fyrir þeirra hönd? Ég mundi ekki líða það ef þeir færu að skipta sér af hvernig ég hagaði ráðherraskipan minni. Málin eru einfaldlega þannig. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvernig það hefur verið í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (BJJ: Jú, jú …) en a.m.k. er vinnulag á milli flokkanna með þessum hætti að því er varðar ráðherraskipan. Þeir bera fyrst og fremst ábyrgð á ráðherrum sínum þó að hver og einn ráðherra starfi svo í umboði stjórnarmeirihlutans. Það er einfalt og skýrt og ég vona að hv. þingmaður skilji það.

Ég vona að hv. þingmaður skilji það líka að ég sem stýri þessari ríkisstjórn geri athugasemd ef ég er ósátt við verklag hjá einstaka ráðherrum í ríkisstjórn, (Forseti hringir.) sérstaklega að því er varðar svo stórt mál eins og fiskveiðistjórnarmálið. Það verður að hafa framgang nú á síðari hluta kjörtímabilsins. Það þarf að vera samstaða (Gripið fram í.) um málið á milli flokkanna (Gripið fram í.) og verða að lögum (Forseti hringir.) á þessu kjörtímabili eins og báðir stjórnarflokkarnir hafa lofað.