140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

stuðningur við sjávarútvegsráðherra.

[15:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra upplýst að tekin hafi verið meðvituð pólitísk ákvörðun um að sniðganga hæstv. sjávarútvegsráðherra, útiloka hann frá því að koma með formlegum hætti að undirbúningi stærsta máls á málasviði hans og sem hæstv. forsætisráðherra segir raunar að sé stærsta mál ríkisstjórnarinnar. Þetta er í raun vantraustsyfirlýsing á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hvorki meira né minna.

Á undanförnum dögum hefur farið fram eins konar liðskönnun á því hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra njóti trausts í eigin röðum til að halda áfram að vera sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Svörin hafa verið á ýmsa lund. Í blöðunum í dag birtu til dæmis 150 stuðningsmenn VG auglýsingu og lýstu yfir sérstökum stuðningi við hæstv. ráðherra og þeir gera það ekki að ástæðulausu. Hæstv. fjármálaráðherra, formaður VG og formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa verið spurðir um þetta mál og þeir hafa svarað með þögninni einni, háværri æpandi þögn. Það er auðvitað ljóst hver afstaða þeirra er. Þeir treysta sér ekki til að lýsa yfir stuðningi við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Öðru máli gegnir um hæstv. innanríkisráðherra og hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Treystir hún sér til þess að lýsa yfir stuðningi við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að gegna starfi sínu áfram? Hefur hæstv. ráðherra Jón Bjarnason traust hæstv. umhverfisráðherra til að sitja áfram í ríkisstjórninni?

Af hálfu Samfylkingarinnar hefur farið fram grímulaus tilraun til að hafa áhrif á það hvernig Vinstri hreyfingin – grænt framboð skipar ráðherra sína til verka í ríkisstjórninni. Þó að hæstv. forsætisráðherra reyni að skáskjóta sér undan því hefur það blasað við og komið hafa dulbúnar og lítt dulbúnar hótanir í þessa veru. Ég spyr því hæstv. umhverfisráðherra: Hvernig kann hún að meta þetta? Finnst henni ekki einkennilegt að verið sé að ráðast inn á verksvið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs með þessum hætti? (Forseti hringir.) Ég fullyrði að þetta er einsdæmi. Ég hef fylgst með svona málum í gegnum tíðina og ég hef aldrei nokkurn tíma áður orðið þess áskynja að einn flokkur geri tilraun til að hafa áhrif á það (Forseti hringir.) hvernig samstarfsflokkurinn skipar mönnum til verka. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í sal og hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.)