140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

stuðningur við sjávarútvegsráðherra.

[15:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. umhverfisráðherra fer algerlega í fótspor foringja síns, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og í fótspor formanns þingflokks VG, og svarar spurningum með þögninni. En það fer hins vegar ekkert á milli mála hvernig túlka ber þessa þögn. Hún er hávær eins og ég sagði áðan og það er augljóst því að þegar hæstv. umhverfisráðherra er spurð einfaldrar spurningar sem er þessi: Treystir hæstv. ráðherra sér til að lýsa því yfir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi traust hennar til að sitja áfram í ríkisstjórninni? þá segir hæstv. umhverfisráðherra: Hv. þingmanni kemur þetta ekki við. Þetta er eitthvað sem við ætlum að leysa. Með öðrum orðum, hæstv. ráðherra víkur sér undan því að svara mjög einfaldri spurningu: Styður hæstv. umhverfisráðherra það að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason sitji áfram sem ráðherra? Er ekki mjög einfalt að svara þeirri spurningu? Telur hæstv. ráðherra það ekki vera óviðurkvæmileg afskipti af hálfu Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) á ráðherraskipan VG eins og þau hafa birst okkur í fjölmiðlum og hér úr ræðustóli Alþingis undanfarna daga?