140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:37]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við göngum til atkvæða um tillögur við fjárlagafrumvarp fyrir 2. umr. Að mínu mati er það sem stendur í frumvarpinu ekki endilega það versta heldur líka það sem ekki er þar fært til bókar. Við höfum ítrekað bent á það í umræðunni um fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir, einnig við fjáraukalagagerð fyrir ekki löngu síðan fyrir árið 2011, að töluvert háar fjárhæðir þar standa utan þeirra tillagna sem ríkisstjórnin og meiri hluti fjárlaganefndar ber fyrir þingið.

Að okkar mati er um að ræða dulinn halla á fjárlögum sem hefur raunar verið staðfestur í ríkisreikningi fyrir árið 2010 meðal annars og á eftir að koma fram í ríkisreikningi fyrir árið 2011 og væntanlega, ef meiri hlutinn tekur ekki sönsum, mun ríkisreikningur fyrir árið 2012 staðfesta það enn fremur að við höfum ekki vandað nægilega (Forseti hringir.) vel til við fjárlagagerð fyrir árið 2012 og það er mjög miður.