140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum að fara í atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið þar sem meðal annars allur innheimtur tekjuskattur ríkisins fer eingöngu í að greiða vexti af skuldum. Nýjar lántökur eru umfram uppgreiðslur sem þýðir að skuldir aukast og sú mynd sem oft hefur verið dregin upp að skuldastaða ríkissjóðs sé ósjálfbær verður æ skýrari. Það þarf róttæka stefnubreytingu og nálgun í skuldamálum hins opinbera á Íslandi, ríkissjóðs, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila þar sem ríkissjóður og fjármálaráðherra þurfa að eiga fyrsta leikinn. Það hefur ekki gerst og því mun Hreyfingin ekki styðja þetta frumvarp þó að hún styðji þó nokkrar breytingartillögur við það.

Ég leyfi mér líka að vekja athygli á því að hér er gert ráð fyrir 300 milljónum til stjórnmálaflokkanna en tveir þeirra hafa enn ekki skilað inn ársskýrslum sem þeir áttu að gera 1. október. Það er brot á lögum. Þetta er annað árið í röð sem viðkomandi stjórnmálaflokkar brjóta þessi sömu lög og nú ætlar Alþingi að samþykkja þessa fjárveitingu.