140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:46]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í nótt var ég að mér forspurðri og fyrir mannleg mistök tekin út af mælendaskrá og hélt því ekki ræðu við 2. umr. fjárlaga eins og ég hafði ætlað mér og undirbúið. Nú hef ég mínútu til að tjá mig.

Frumvarpið hefur tekið talsverðum breytingum frá því að það var fyrst lagt fram og bætt hefur verið við liðina sem snúa að heilbrigðismálum. Það er vel og í samræmi við kröfur sem risið hafa í samfélaginu og ég tek heils hugar undir.

Þó er ýmsum knýjandi spurningum ósvarað og meira þarf að gerast. Síðast í gær var ég meðal annars upplýst um það að fjöldi kvenna sem sinna umönnunarstörfum fyrir aldraða megi hugsanlega búast við uppsagnarbréfi og að endurhæfing á landsbyggðinni muni bíða mikið tjón. Áheyrendur á þingpöllum í gær minntu okkur á þann átakanlega niðurskurð sem Landspítalinn hefur orðið fyrir um langt skeið og landið allt. Það er áríðandi að fara aftur vel yfir heilbrigðis- og velferðarmálin á milli 2. og 3. umr. og leita allra leiða til að hlífa þjónustunni.

Ég vil skoða þetta vel áður en að 3. umr. kemur (Forseti hringir.) en ég mun greiða atkvæði með frumvarpinu nú enda flestir liðir þess til hækkunar frá upphaflegu frumvarpi.