140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að lögfesta viðtöku tæplega 600 milljóna frá Evrópusambandinu. Í svari sem mér barst frá hæstv. utanríkisráðherra kemur fram að þetta séu sérstök framlög úr sjóðum Evrópusambandsins til að standa straum af breytingum á stjórnkerfi eða stofnunum sem um kann að semjast eða til að byggja upp þekkingu innan íslenska stjórnkerfisins á innviðum Evrópusambandsins, þar á meðal sjóðakerfi þess. Og svo er verið að telja fólki trú um að ekki sé um aðlögun að Evrópusambandinu að ræða.

Virðulegi forseti. Ég segi nei við fjáraustri Evrópusambandsins í íslenskt hagkerfi og því segi ég að sjálfsögðu nei í atkvæðagreiðslu þessari.