140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér kristallast með skýrum hætti hver forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er. Hér er verið að taka ákvörðun um að veita 37 millj. kr. í að fjölga aðstoðarmönnum. Á sama tíma er verið að skera niður í velferðarmálum.

Ekki var hægt að upplýsa það við umræðuna um stjórnarráðsfrumvarpið þegar það var samþykkt hve mikill kostnaðurinn við þetta yrði og ég gagnrýndi það mjög harðlega. Nú liggur fyrir að heimila á að ráða þrjá aðstoðarmenn, einn fyrir hæstv. innanríkisráðherra, einn fyrir hæstv. velferðarráðherra og einn sem á að starfa í forsætisráðuneytinu. Ég bið hv. alþingismenn að hugsa um það að farið var í breytingar á húsnæði fyrir tugmilljónir króna til að sameina ráðuneytin. Hver er svo niðurstaðan af því? Eyða tugum milljóna í breytingar á húsnæði og spara laun tveggja þingmanna fyrir ráðherralaun. Þetta er náttúrlega ekkert annað en hreinn og klár skrípaleikur.