140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er ansi merkilegt að sjá forgangsröðun hinnar norrænu velferðarstjórnar þegar kemur að sveitarfélögum sem hafa árum saman glímt við fólksfækkun og minnkandi tekjur. Ríkisstjórnin undir forustu hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar leggur hér til breytingu þar sem vegið er mjög að fámennum sveitarfélögum vítt og breitt um landið sem hafa búið við samdrátt á undangengnum árum. Góðærið kom aldrei til þessara sveitarfélaga. En nú ætlar hin norræna velferðarstjórn að skerða aukaframlagið sem hefur verið alger lykilþáttur í tekjum þessara sveitarfélaga til að standa undir velferð og þjónustu gagnvart íbúum sínum. Nú er komið að því að beita niðurskurðarhnífnum gagnvart þessum smáu samfélögum og það er undir forustu hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar.