140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram áðan kölluðum við breytingartillögu okkar framsóknarmanna aftur til 3. umr. Mig langar samt að útskýra hana í stuttu máli. Hún gengur einfaldlega út á það að algerlega verði horfið til baka með þennan niðurskurð, þ.e. við leggjum til að niðurskurðurinn á þessu ári verði flatur sem og niðurskurðurinn á síðasta ári. Allt umfram 4,7% skerðingu á síðasta ári verði bætt þeim stofnunum sem fengu miklu meiri skerðingu en það. Við teljum nefnilega að það sé nú eða aldrei að snúa við af þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa í raun ekki boðað en birtist í fjárlögum. Við viljum setja um 1,3 milljarða í þetta og bæta Sjúkrahúsinu á Akureyri, Landspítalanum og heilbrigðisstofnunum út um allt land (Forseti hringir.) þar sem var skorið niður í fyrra umfram 4,7%.