140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:12]
Horfa

Atli Gíslason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Almennt um heilsugæslu og sjúkrahúsþjónustu. Ég og hv. þm. Lilja Mósesdóttir munum greiða atkvæði með öllum tillögum sem leiða til hækkunar. Engu að síður hefur það gerst að unnið hefur verið varanlegt tjón á heilsugæslu- og sjúkrahúsþjónustu með niðurskurði síðustu ára, varanlegt tjón. Það er óþolandi.

Ég nefni sem dæmi að á Suðurlandi á að leggja af Heilsugæslustöðina á Hellu. Það liggur fyrir vönduð skýrsla um Sjúkrahúsið á Sauðárkróki þar sem kemur fram að niðurskurður mun leiða til búsetuskerðingar. Það er verið að flytja þessa þjónustu á landsbyggðinni annað, inn á Landspítalann og á Sjúkrahúsið á Akureyri. Hvar er sparnaðurinn? Hvar er stefnan? Við áskiljum okkur rétt til að leggja fram ítarlegar breytingartillögur varðandi sjúkrahús og heilsugæslur við 3. umr.