140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það eru mikil vonbrigði að ekki sé betur tekið á heilbrigðismálum í 2. umr. fjárlaga, þ.e. til að leiðrétta þá villu sem ríkisstjórnarflokkarnir eru hér í. Engin stefnumótun liggur til grundvallar þessum ákvörðunum en fyrir ári síðan var sagt að farið yrði í slíka stefnumótun þannig að við mundum ekki standa hér ári seinna að taka ákvarðanir byggðar á sandi og engri framtíðarsýn. Þess vegna sjáum við núna ákvarðanir eins og þá sem til dæmis var tilkynnt um í dag, að loka ætti heilsugæslustöðinni á Hellu. Þar sjá borgararnir ekki fram á neitt annað en verulega skerðingu á grunnþjónustu. Þetta blasir við. Var grunnþjónustan ekki akkúrat það sem við ætluðum okkur öll að verja? Það hefur heldur ekki verið staðið við það að opna heilsugæslu í Sandgerði þannig að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við sjáum ákvarðanir sem þessar. Við erum á rangri braut. Það þarf (Forseti hringir.) skýra stefnumótun í heilbrigðismálum og ekki seinna en strax.