140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:30]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sé mig knúinn til að koma hingað upp af því að menn hafa farið mikinn um litla stefnumörkun og hversu tilviljanakennt hafi verið staðið að verki við niðurskurð í heilbrigðismálum.

Það er rétt sem margoft hefur komið fram að útgangspunkturinn er sá að fimmtungur af fjárlögum fer til heilbrigðisstofnana. Þegar skerðing verður eins og við höfum séð á undanförnum árum, af ástæðum sem öllum eru kunnar, skerðing á fjárlögum, þ.e. 20% af tekjunum, er óhjákvæmilegt að það komi víða við. Því miður hefur það komið við heilbrigðiskerfið og ber að harma það en ég held að menn hafi unnið það eins vel og hægt er. Ég ætla að vekja athygli á því að allan tímann hefur verið unnið út frá lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, það hefur margoft komið fram. Unnið hefur verið samkvæmt því á öllum svæðum. Það eru til greiningar, það er til skýrsla upp á tugi blaðsíðna þar sem farið er yfir hvernig þetta er gert. Þetta er ekki sársaukalaust, þetta er mjög erfitt.

Það er mjög forvitnilegt (Forseti hringir.) við þessar síðustu tvær tillögur um Heilbrigðisstofnunina Patreksfirði frá minni hluta og meiri hluta fjárlaganefndar, að á milli þeirra ber 200 þús. kr. (Forseti hringir.) Það er ástæða til að halda þeim ágreiningi til haga.