140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:34]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ef hæstv. velferðarráðherra kallar umræðuna í þjóðfélaginu hryllingsumræðu þá hvet ég hann til að fara örlítið öðruvísi til fundar við almenning í landinu en þessi orð bera vitni um. Ég hefði átt von á því að ráðherra hefði frekar lagt áherslu á þessa samanburðarfræði sína þegar við ræddum tillögu meiri hlutans um Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þar munaði þó hálfum milljarði á tillögu meiri hlutans og minni hlutans sem menn gátu rætt. Hér fjasar hæstv. ráðherra um 200 þús. kr. eins og það skipti máli í heildarsamhenginu. (Gripið fram í.) Munurinn á tillögu 1. minni hluta fjárlaganefndar og þess klórs sem hér er á ferðinni er sá að við gerum tillögu um það og óskum eftir því við þingið að við vinnum að hagræðingu í heilbrigðisþjónustunni með heildstæðum hætti. Því er greinilega ekki vel tekið af hæstv. velferðarráðherra og það þykir mér mjög miður.