140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það var ekki ætlun mín að taka til máls undir þessum lið en ég verð að gera það þegar hæstv. ráðherra kemur upp og skammar þingmenn og lætur í veðri vaka að við förum með fleipur og segir að þær hækkanir sem þingmenn ræða um séu úr takti. Úr takti við hvað? Það gengur ekki að koma hingað upp í hvert einasta skipti þegar ríkisstjórnin og ráðherrar þurfa að færa rök fyrir máli sínu og segja: Hér varð hrun, og yppa svo öxlum. Það er ekki marktækt lengur. [Háreysti í þingsal.] Það er vegið að grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) hringinn í kringum landið og á því ber þessi stjórnarmeirihluti ábyrgð. Ef hann treystir sér ekki til að reka þetta samfélag á þeim nótum, vitandi að hér varð hrun,

(Forseti (RR): Forseti biður um hljóð.)

ef hann treystir sér ekki til að bregðast við því, á hann að fara frá völdum nú þegar og eftirláta þeim sem treysta sér til að reka samfélagið, (Forseti hringir.) og skera minna niður í heilbrigðisþjónustunni, að sinna því verkefni. (Gripið fram í.) Það hafa verið unnar skýrslur sem staðfesta það, hæstv. ráðherra.