140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki miklu við það að bæta sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni. Við höfum verið samtaka um að færa inn alla liði sem fyrir liggja í bókhaldi ríkisins. Okkur hefur fundist og mér sérstaklega að ríkisstjórnin sé með einum eða öðrum hætti að reyna að fegra ástandið. Ég hef gagnrýnt sérstaklega þá áherslu að ítrekað sé bent á frumjöfnuð í staðinn fyrir heildarjöfnuð. Ríkisendurskoðun hefur sjálf gagnrýnt þá framsetningu. Ástæðan fyrir því að nota þá framsetningu er einfaldlega sú að þá lítur dæmið miklu betur út.

Ég vil líka af þessu tilefni fagna því að hér sé verið að stíga enn eitt skref í átt til þess að Vaðlaheiðargöng verði að veruleika. Þetta er framkvæmd sem skiptir íbúa á norðaustursvæði landsins gríðarlega miklu. (Forseti hringir.) Ég ætla líka að vekja athygli á því, frú forseti, að búið er að kasta öllum öðrum verkefnum þessarar ríkisstjórnar sem áttu að (Forseti hringir.) leiða til atvinnuuppbyggingar út af borðinu.