140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tel að sú hugsun sem felst í þessari breytingartillögu sé eðlileg og réttmæt. Ég er sammála því að þegar um meiri háttar heimildarákvæði er að ræða sem varða umtalsverða fjárhagslega hagsmuni sé eðlilegt að viðhafa verklag af þessu tagi. Ég lýsi mig fyrir mitt leyti algerlega sammála því að fjárlaganefnd glími við að útfæra svona ákvæði.

Ég hvet hv. fjárlaganefnd engu að síður til að íhuga hvort ekki eigi að aðgreina þarna minni háttar ráðstafanir eigna, til að mynda þegar heimildir eru veittar fyrir sölu á einstöku húsi eða einum bústað til að verja til kaupa á öðrum. Þá er í raun og veru ekki um að ræða fjárhagslegar breytingar heldur er verið að færa til fjármuni en til þess þarf heimildir engu að síður samkvæmt fjárlögum. Þarna verði dregin einhver mörk vegna þess að ég held að það sé fjárlaganefnd sjálfri til nokkurs verksparnaðar að ekki þurfi að bera undir hana minni háttar mál af því tagi sem í raun og veru fela ekki í sér neinar eiginlegar eignabreytingar eða breytingar á skuldbindingum heldur eingöngu tilfærslu. Þannig að þegar er til dæmis verið að selja íbúðarhúsnæði, opinbera bústaði (Forseti hringir.) og leysa húsnæðismálin með öðrum hætti verði slíkt undanþegið.