140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Verið er að greiða atkvæði um heimildargrein sem orðast þannig, með leyfi forseta:

„Að selja fasteignir ríkisins að Sogni í Ölfusi og ráðstafa andvirðinu að hluta til uppbyggingar nýrrar réttargeðdeildar á Kleppi.“

Þetta þykir mér ansi óvanaleg grein, sérstaklega í ljós þess að ekki er búið að samþykkja fjárlögin. Samt er búið að ákveða hvernig þjónustunni verður fyrir komið. Eins og við vitum er ekki sátt um þá ákvörðun.

Ég vil vekja athygli á því að við erum 11 þingmenn sem leggjum fram tillögu til þingsályktunar þar sem við leggjum til að þessari ákvörðun verði frestað þar til fagleg úttekt á rekstrinum liggur fyrir. Ég trúi ekki öðru, virðulegur forseti, en að þetta séu einhver mistök vegna þess að 1. flutningsmaður þeirrar tillögu er einnig flutningsmaður að þessari breytingartillögu. Ég trúi ekki öðru en að þingheimur muni fella þessa tillögu, (Forseti hringir.) þó ekki væri nema vegna þess að þetta hljóta að vera mistök.