140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er væntanlega orðinn gleyminn því hann gleymdi að nefna kostnaðinn við sín eigin vinnubrögð. Um þau hefur mikið verið fjallað og núna er verið að skoða þau í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Við náum ekki að fara yfir það í þessari stuttu atkvæðaskýringu.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því, af því að hér hafa menn barið sér á brjóst yfir því hversu vel sé staðið að málum, að Ríkisendurskoðun, eftirlitsstofnun okkar hefur gert það að sérstöku umtalsefni að hér er um algerlega opna heimild að ræða. Hér er ekki einu sinni gerð tilraun til þess, þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi haft þetta mál hjá sér í nærri þrjú ár núna, að meta kostnað ríkissjóðs. Hverju gæti munað að mati Ríkisendurskoðunar? Það gæti munað því, í þessu máli og öðrum sambærilegum, að hallinn færi úr 22 milljörðum í 67 milljarða, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmenn stjórnarliðsins í það minnsta að vera ekki að guma af þessu.