140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ekki var upplitið á hæstv. fjármálaráðherra björgulegt þegar hann fór að tala um þetta áðan. Hæstv. fjármálaráðherra veit upp á sig sökina. Alveg sambærileg heimild var sett í fjáraukalögin sem við afgreiddum fyrir örfáum dögum. Í þessi fjárlög er verið að setja sömu grein, orðrétta, og er hér um tvítalningu að ræða. Ég spyr: Er verið að sækja sér tvær heimildir, hvora í sín fjárlögin? Hér er gat upp á 11,2–30 milljarða, allt eftir því að hvaða niðurstöðu úrskurðarnefndin kemst sem metur eignasafn SpKef. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki tíma til að bíða eftir því. Hér er komin ný, önnur opin heimild á ríkissjóð eins og sú sem ríkisendurskoðandi gagnrýndi að væri í fjáraukalögunum.

Frú forseti. Þetta er hneyksli og það mætti segja mér að þessi embættisfærsla hæstv. fjármálaráðherra ætti eftir að enda hjá ESA (Forseti hringir.) eins og allar hans embættisfærslur í fjármálakerfinu (Forseti hringir.) og því sem hann kemur nálægt. Þetta er hneyksli.