140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[18:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir þessari umræðu til að fara aðeins yfir helstu efnisþætti þriðju skýrslu eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun sem nefndin hefur skilað til ráðherra. Tilurð þessarar nefndar var með þeim hætti að félags- og tryggingamálanefnd setti inn í umfjöllun sinni um frumvarp sem síðar varð að lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja, ákvæði um að … [Kliður í þingsal.]

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa þingmanninum hljóð hér í sérstakri umræðu.)

þessi eftirlitsnefnd mundi taka að sér að fylgjast með því hvernig framkvæmd laganna gengi fyrir sig

Margt athyglivert er í þessari skýrslu og ýmsar ábendingar koma fram. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra fari aðeins yfir það með okkur í ræðu sinni á eftir hvernig þeim ábendingum verður fylgt eftir af hálfu ráðuneytisins, ef ætlun ráðuneytisins er að bregðast við skýrslunni á einhvern hátt. Ég tel mikilvægt fyrir þingið að fá þær upplýsingar fram. Vissulega byggir framkvæmd 110%-leiðarinnar og sértækrar skuldaaðlögunar á samkomulagi milli fjármálafyrirtækjanna en engu að síður er aðkoma stjórnvalda mikilvæg. Hún blasir við vegna þess að við settum lög um þessa framkvæmd og þess vegna tel ég að okkur beri að fylgja henni eftir, fylgjast með því að úrræðin séu virk og þeim sé beitt, og að viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna eigi þess kost í raun og veru að leita í þessi úrræði og fá úrlausn sinna mála.

Fram kemur í skýrslunni, sem er mjög mikilvægt að halda til haga, að starfsmenn fjármálafyrirtækjanna vinni vel og vinni af heilindum og viðskiptavinir fái góða þjónustu þar og að sambærileg mál séu afgreidd með sambærilegum hætti. Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram og gott að nefndin komst að þessari niðurstöðu, vegna þess að það hefði verið mjög miður ef svo væri ekki.

Þegar farið er yfir umfjöllun nefndarinnar um 110% úrræðið kemur skýrlega í ljós að það er skoðun nefndarinnar að 110% úrræðið hafi verið útfært of þröngt í samkomulaginu. Það hefði mátt vera einfaldara og þar með fljótlegra í framkvæmd, þ.e. það hefði átt að vera aðgengilegra fyrir þá sem vildu leita inn í úrræðið og framkvæmdin hefði átt að vera skilvirkari. Því er spurning hvort það sé hlutverk löggjafans og þá í samvinnu við ráðherra að bregðast við þessum athugasemdum á einhvern hátt.

Jafnframt er miklu púðri eytt í að fjalla um svokallað frítekjumark sem skapast hefur hefð um að beita í framkvæmd fjármálastofnananna en var ekki hluti af samkomulaginu og var í rauninni ekki fjallað um á neinn hátt í nefndinni þegar málið fór í gegnum þingið.

Þegar kemur að umfjöllun um sértæka skuldaaðlögun er ljóst að úrræðinu hefur að mjög litlu leyti verið beitt. Nefndin tekur svo til orða að úrræðið sé í hálfgerðum skammarkrók hjá fjármálafyrirtækjunum. Þetta eru að sjálfsögðu vonbrigði vegna þess að nú eru tvö ár síðan lögin voru sett. Auðvitað eru þetta flókin og viðamikil úrlausnarefni, það átta sig allir á því, en engu að síður eru tvö ár ansi langur tími. Því er mikilvægt að við tökum okkur öll saman um að setja kraft í úrlausn þessara mála. Vissulega hefur þetta verið til meðferðar hjá núverandi félagsmálanefnd í samvinnu við aðila að samkomulaginu en samt sem áður er mikilvægt að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvort hann ætli að beita sér eitthvað í þessum málaflokki.

Þá langar mig að ítreka það sem ég hef ávallt sagt þegar við höfum rætt um skuldavanda heimilanna og úrlausn þeirra mála að við rekum okkur á það í hvert einasta skipti sem við fjöllum um þessi mál að það er skortur á upplýsingum. Við sjáum í þessari skýrslu að það er skortur á upplýsingum um hvaða mál það eru sem fjármálafyrirtækin fá inn á sitt borð og hvernig lúkning þeirra er, þ.e. það skortir á skipulagða skráningu.

Að lokum langar mig að fjalla aðeins um skuldavanda bænda. Talsverðu púðri er eytt í það mál í skýrslunni. Bændur eru í mjög sérstakri aðstöðu vegna þess að heimilisrekstur þeirra og fyrirtækjarekstur er í rauninni samtvinnaður og samblandaður. Í skýrslunni er bent á ýmis atriði sem verður að laga en eru ekki á verksviði fjármálafyrirtækjanna og hljóta þar af leiðandi að vera á verksviði stjórnvalda, en það eru atriði sem varða eignamat (Forseti hringir.) og virði eigna bænda. Er það eitthvað í pípunum hjá hæstv. ráðherra að bregðast við þessum athugasemdum?