140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[19:23]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni er verið að færa hugtakanotkun til samræmis við lög um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, því að menn telja skýrara hvað þar er átt við. Þetta þýðir að eigendaábyrgðin nær til fjárhagslegra skuldbindinga sem teljast þá vera þessir fjármálagerningar.

Eins og ég sagði hefur verið óvissa um hvað sé nákvæmlega átt við með hugtakinu lánaskuldbinding. Það hefur skapað óvissu um hvort eigendum fyrirtækjanna, þ.e. ríkinu sem eiganda Landsvirkjunar og Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum sem eigendum Orkuveitu Reykjavíkur, sé heimilt að ábyrgjast fjárhagslegar skuldbindingar sem byggja ekki á lánasamningum, eins og afleiðusamninga og skuldabréfaútgáfu. Með þessu er verið að taka af öll tvímæli um það.

Hvað þetta þýðir í krónutölu get ég ekki svarað hv. þingmanni á þessari stundu en get auðveldlega aflað mér upplýsinga um það. Ég tel að menn ættu að fara vandlega yfir það í nefnd. Ef hv. þingmaður telur að þetta auki ekki á skýrleika mála eins og til er ætlast í frumvarpinu vonast ég til og ætlast til að þeir taki það til ítarlegrar umræðu í nefnd.