140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[19:27]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þann 29. maí árið 2008 voru samþykkt lög þar sem kveðið var á um að það ætti að aðskilja samkeppnis- og einkaleyfisstarfsemi orkufyrirtækja. Í kjölfarið hófu þrjú fyrirtæki undirbúning að því og aðskildu starfsemina síðar eins og lög kváðu á um, þ.e. HS Orka breyttist í HS Orku og HS Veitur, Norðurorka og Rarik stofnuðu fyrirtækin Fallorku og Orkusöluna sem dótturfélög þannig að þau voru aðskilin. Það er ljóst að það féll til kostnaður við að aðskilja þessi fyrirtæki, en aðskilnaður er gerður fyrst og fremst til að ekki sé hægt að krossniðurgreiða orku. Það er gert til að samkeppnisstaða fyrirtækjanna sé jöfn.

Árið 2009 bað Orkuveita Reykjavíkur um frest til að gera þetta. Hún bað um hann aftur 2010 og þá um að yrði frestað til 1. janúar 2011. Síðast þegar uppskiptingunni var frestað sannfærðu iðnaðarráðuneytið og Orkuveita Reykjavíkur iðnaðarnefnd um að þetta væri örugglega síðasta skiptið og menn settu tíu putta upp til guðs því til tryggingar. Nú er enn og aftur þetta fjórða fyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur, með einhverjar aumar afsakanir fyrir því að (Forseti hringir.) fara ekki að lögum. Ráðuneytið kemur inn í Alþingi með aumar (Forseti hringir.) afsakanir fyrir því af hverju á að leyfa því það. Hvað er í gangi, hæstv. ráðherra?