140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[19:32]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var náttúrlega langt frá því að vera fullnægjandi svar. Það er loðnara en það sem hæstv. ráðherra gaf í þessum sal fyrir ári síðan af nákvæmlega sama tilefni. Það er algjörlega ljóst að Orkuveita Reykjavíkur hefur gengið á lagið. Þetta er í þriðja skiptið sem fyrirtækið biður um frestun en hin þrjú orkufyrirtækin eru búin að skipta sér upp með þeim kostnaði sem því fylgir. Við sáum það við hækkanir á orku í fyrra og á þessu ári hvernig Orkuveita Reykjavíkur notfærði sér þá stöðu sem er verið að reyna að koma í veg fyrir að fyrirtækið notfæri sér, þ.e. að krossniðurgreiða dreifingu og orkusölu sem er aðalástæðan fyrir því að Evrópusambandið innleiddi þá tilskipun sem við erum hér að fara eftir.

Ég spyr ráðherrann að einu: Hvernig stenst það samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði að veita einu fyrirtæki af fjórum frest trekk í trekk? Er það ekki brot á samningnum og sérstaklega brot á jafnræði gagnvart hinum fyrirtækjunum þremur? Eða var þetta ekkert hugsað? Var bara sent inn eitthvert bréf sem menn afgreiða sjálfvirkt eins og hefur verið gert undanfarið?

Ráðherrann verður að muna hvernig þetta var gert í fyrra og hvaða loforð voru gefin um að þessu yrði fylgt mjög fast eftir. Það var á þeim forsendum sem iðnaðarnefnd hleypti málinu hérna inn (Forseti hringir.) í fyrra.