140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[19:34]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fer hér með stór orð og er með dóma á það sem menn segja, almenna dóma og palladóma, (Gripið fram í: Dóma?) og heldur því fram að hér séu svör aum. Hv. þingmaður segir það og notar sinn alþekkta og smekklega orðaforða en (Gripið fram í.) ég bendi hv. þingmanni á það — (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞBack): Gefa …) (Forseti hringir.)

Sá ráðherra sem hér stendur skal svo sannarlega reyna að standa sig. Hv. þingmaður ætti að standa sig í því að lesa frumvarpið áður en hann heldur því fram að þessi grein snúi eingöngu að Orkuveitu Reykjavíkur. Í frumvarpinu kemur skýrt fram að þetta er almenn breyting og á við um öll orkufyrirtækin í landinu. Hv. þingmaður mundi svo sannarlega standa sig með sóma ef hann læsi það frumvarp sem hann er hér að gagnrýna.

Það er ekkert um það að ræða að hér sé verið að brjóta neitt jafnræði af því að það er verið að gera breytingar á raforkulögum og það snýr að öllum fyrirtækjum í landinu.

Virðulegi forseti. Þetta fyrirtæki (Gripið fram í.) hefur lent í mjög miklum erfiðleikum, er að taka fast á sínum málum og býr við alþjóðlegt efnahagsumhverfi sem er því mjög erfitt. Við verðum að hlusta á fyrirtækin þegar þau koma með þessa ósk inn til þingsins. Ég lít svo á að það sé skylda okkar.

Ef atvinnuveganefnd hefur eitthvað við þetta að athuga getur hún rannsakað málið betur. Það er mitt mat að það sé rétt að koma með þetta hingað inn þar sem þetta ákvæði á að taka gildi um áramótin. Það er mitt mat. (Gripið fram í.) Ég legg til, virðulegi forseti, að áður en hv. þingmaður kemur upp í svona andsvör lesi hann frumvarpið. (TÞH: Er ég ekki búinn að því?)