140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[19:42]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að svara nokkrum spurningum og hugleiðingum sem hv. þingmaður beindi til mín. Nefndin sem fjallað er um í þessu frumvarpi fjallar eingöngu um þann þrönga þátt sem snýr að Landsneti og framtíðarfyrirkomulagi á því eignarhaldi. Hún mun ekki fjalla um það hvort og þá hvenær uppskiptingin verði. Í þessu frumvarpi leggjum við til tvö ár á uppskiptingunni til að reyna að tryggja að þetta muni ekki koma inn á okkar borð og verði ekki að árvissum viðburði. Ég vonast til þess að menn nái að ljúka þessu á næstu tveimur árum. Við höfum fengið góða skýrslu frá Hagfræðistofnun sem fjallað var um í iðnaðarnefnd á síðasta ári þegar málið var til umfjöllunar og við munum kynna hana ítarlega fyrir atvinnuveganefnd og dreifa henni þegar um þetta mál verður fjallað. Ég geri ráð fyrir að við sendum nefndinni hana á næstu dögum þannig að nefndarmenn geti kynnt sér hana.

Svo langar mig aðeins í lokin að deila skoðunum með hv. þingmanni í því að ég lít á hlutina alveg eins og hv. þingmaður varðandi grunnnet símans. Menn hefðu ekki átt að selja það með. Þess vegna er ég hlynnt því að Landsnet fari hreinlega í beina eigu ríkis og sveitarfélaga á sömu forsendum. Ég lít á þetta sem algera grunnþjónustu og síðan eigi frekar, eins og í tengslum við grunnnet símans, að ríkja mjög virk samkeppni í því hvað menn tengja við þetta flutningsnet. Þar á hins vegar að vera virk samkeppni. Upplýsingaþjóðvegurinn sem við köllum grunnnet Landssímans gamla finnst mér að ætti að vera í opinberri eigu. Nú er bara spurning hvernig við förum að því að, hvort það sé gerlegt úr þessu, en þá skoðun styð ég svo sannarlega.