140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Í tilefni þess að á morgun er alþjóðadagur fatlaðs fólks minni ég á nokkur atriði sem við þurfum að aðgæta frekar. Það er meðal annars staða samnings um réttindi fatlaðs fólks. Árið 2007 var samningurinn undirritaður af hálfu Íslands og þá lýstu íslensk stjórnvöld eindregnum vilja til að innleiða samninginn og að því er unnið.

Sú vinna hefur verið í gangi en það er komið að þeirri stöðu núna að við þurfum að taka ákvörðun um það með hvaða hætti við ætlum að innleiða samninginn. Það er hægt að gera með tvennum hætti, annaðhvort að samningurinn verði fullgiltur eins og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum, þ.e. með fullgildingu, eða með lögfestingu. Við þurfum að taka ákvörðun um það hvaða stöðu við ætlum að gefa þessum samningi og gera það hið allra fyrsta. Ég bendi á mikilvægi þess að taka ákvörðun um með hvorum hætti við ætlum að gera þetta.

Annað sem ég bendi á eru landamærahindranir á milli Norðurlandanna í réttindum fatlaðs fólks. Örorkulífeyrisþegar hafa lent í því í auknum mæli að geta ekki nýtt réttindi sín ef þeir flytja milli Norðurlandanna. Við höfum mismunandi lög um réttindi fatlaðs fólks og við höfum mismunandi réttindi hvað varðar atvinnumarkaðinn. Þetta skarast og þegar fólk flytur á milli Norðurlandanna missir það réttindi sín. Þetta er mjög alvarlegt og kemur illa niður á þeim hópi sem lendir í þessu. Ég veit að það er verið að skoða þessi mál, og það á milli Norðurlandanna, (Forseti hringir.) en mjög ákveðin og markviss vinna þarf að fara í gang varðandi þetta.