140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir ræðuna. Hún var mjög góð.

Ég kem upp til að vekja athygli á frumvarpi sem er komið fram um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins. Þetta er býsna langt og mikið nafn á ívilnunarfrumvarpi til þeirra sem ætla að nýta þessa styrki.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að tilefnið sé að þann 8. júlí 2011 árituðu fulltrúi íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rammasamning um þessar reglur. Hvar er þessi samningur (Utanrrh.: Í frumvarpinu.) sem var undirritaður og hvers vegna er hæstv. utanríkisráðherra ekki búinn að koma fyrir utanríkismálanefnd og kynna hann? (Gripið fram í: Hvaða umboð?) Um hvaða samning er að ræða? Af hverju er utanríkismálanefnd ekki búin að fá þennan samning til að ræða á fundum sínum? (Gripið fram í.) Hefur hæstv. ráðherra ekki komið í þennan stól og sagt að hann hafi mjög gott og náið samráð og samstarf við utanríkismálanefnd um Evrópusambandsumsóknina? Svo lesum við í frumvarpi að það er til samningur frá 8. júlí sem er ekki búið að kynna okkur.

Ég er búinn að fara fram á það að þessi samningur verði kynntur í utanríkismálanefnd sem fái hann til umfjöllunar og ég ætlast til þess að það verði gert strax eftir helgi. Það er algjörlega óþolandi að vera alltaf í því að reyna að grenja fram gögn frá þessari ríkisstjórn eins og við þekkjum úr Icesave-ævintýrinu öllu saman og fleiri málum. Núna verður þessi samningur að koma, það er ekki hægt að sitja undir þessu, frú forseti. Ég hvet frú forseta til að taka í lurginn á þeim sem halda þessu leyndu fyrir okkur.