140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að ræða um hóp fólks sem lítið er ræddur á Alþingi, nokkuð stóran hóp sem stendur undir lánveitingum til fjölskyldnanna í landinu sem og fyrirtækja. Ég er að tala um sparifjáreigendur. Mig langar til að spyrja hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar, Helga Hjörvar, um stöðu þessa hóps.

Fyrst spyr ég um umtalið, þessi hópur er yfirleitt kallaður fjármagnseigendur og það er ljótt fólk í sölum þings. Síðan vil ég nefna „fyrirlitningu“ bankanna á þessum viðskiptavinum sínum með því að greiða þeim lága vexti. Hjá Landsbankanum í hæsta lagi 2,5% ef menn eiga meira en 5 milljónir í 5% verðbólgu. Þessir 2,5% vextir eru skattaðir um 20% þannig að 2% sitja eftir í 5% verðbólgu. Ég kalla þetta fyrirlitningu bankanna á þessum hópi. 80% af innlánum eru óverðtryggð og það er skattað með 20% þrátt fyrir að það séu neikvæðar tekjur.

Síðan er spurningin um tilviljunarskattlagningu. Það kom í ljós að vegna mistaka, að mínu mati, bera skuldabréf, húsbréf og spariskírteini sem eru innleyst núna 20% skatt samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra 13–14 ár aftur í tímann. Þetta er tilviljunarskattlagning því að það vissi enginn af þessu og þetta var ekkert kynnt.

Vextirnir hafa áhrif á bætur almannatrygginga og svo eru þessar innstæður ótryggðar. Innlánstryggingakerfið er handónýtt, það er engin ríkisábyrgð á þessu og fólk verður að treysta því að bankarnir standi. Þess vegna hringir í mig fjöldi fólks sem er með peningana sína í bankahólfi, jafnvel upp undir 10 milljónir, og segist hafa af þessu miklar áhyggjur. Þetta er undirstaða lánveitinga. Ég man þá tíð að fólk fékk engin lán neins staðar.