140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sparnaður er dyggð, sparnaður er forsenda þeirra fjárfestinga sem við þurfum á að halda, aflvaki þeirra hluta sem gera þarf. Það höfum við oft áður rætt, við Pétur Blöndal, og ég deili áhyggjum hans af ávöxtun sparifjár í landinu, kannski ekki síst því að fyrir utan það sem hann nefndi skerðum við í allt of ríkum mæli bætur fólks vegna fjármagnstekna. Það umhverfi er orðið þannig að það er beinlínis orðið hvetjandi fyrir fólk til að taka út innstæður sínar. Ég tek enn og aftur undir það með hv. þingmanni að þetta ástand má ekki vera viðvarandi, en það þurfa ýmsir að leggja ýmislegt á sig nú um stundir í íslensku samfélagi, því miður.

Vegna orða hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar áðan um IPA-styrkina er rétt að benda hv. þingmanni á að hann þarf ekki að bíða hér fram eftir helgi. Þetta er opið og lýðræðislegt ferli og í þinginu hefur samningnum auðvitað verið dreift. Við sitjum saman í hv. utanríkismálanefnd og ég veit ekki betur en að að minnsta kosti tvisvar sinnum hafi verið sagt frá þessum samningi í nefndinni.

Sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar hélt ég í upphafi þings opinn fund með fjármálaráðherra um þingmálaskrá hans fyrir veturinn þar sem getið var um þetta frumvarp. Nefndarmenn höfðu öll færi á því að spyrja út úr um það svo það á ekki af þeim sökum að koma neinum á óvart. Efni málsins á heldur ekki að koma neinum á óvart. Heimurinn hefur ákveðið að sendiráð og alþjóðastofnanir njóti gagnkvæmra skatthlunninda. Slíkra hlunninda hefur til dæmis Atlantshafsbandalagið notið hér án þess að nokkur hafi gert athugasemdir við það sem og ýmsir norrænir sjóðir. Hið sama gildir um IPA og sendiskrifstofur okkar í öðrum löndum. Menn geta verið á móti þessu alheimsfyrirkomulagi og viljað breyta því í heild sinni, en meðan við viljum ekki greiða skatta af starfsemi okkar erlendis er eðlilegt (Forseti hringir.) að við veitum sambærilegar ívilnanir fyrir alþjóðastofnanir hér og við njótum annars staðar.