140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ósakhæfir fangar á Íslandi og aðbúnaður þeirra fyrr og nú.

[11:23]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka frummælanda og ráðherra fyrir þessa þörfu umræðu. Það var sárt að horfa á þann Kastljósþátt sem frummælandi vitnaði til áðan. Við þurfum að sýna hugrekki og að fara vel ofan í saumana á þessum málum, skoða söguna og rýna í það í hvaða farvegi þessi mál voru hjá okkur. Það er margt sem minnir á mál vistheimilabarna í þessari umræðu, við þurfum að skoða þá sögu, við þurfum að gera hana upp og horfast í augu við þessa skelfilegu fortíð, læra af henni og sjá til þess að svona nokkuð geti aldrei gerst aftur.