140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ósakhæfir fangar á Íslandi og aðbúnaður þeirra fyrr og nú.

[11:24]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að taka upp það viðkvæma mál sem við ræðum hér. Það er mjög mikilvægt að við mótum stefnu varðandi meðferð og ábyrgð á ósakhæfum afbrotamönnum. Fyrir höndum stendur að byggja nýtt fangelsi, það er mikilvæg framkvæmd, en það er ekki síður mikilvægt að móta stefnu um það hvernig vista skuli ósakhæfa afbrotamenn og ekki síður hvað varðar heilbrigðisþjónustuna sem þeir eiga að njóta.

Það er mikilvægt að það sé alveg fastmótað hjá okkur hvernig tryggja skuli réttindi ósakhæfra manna, hvernig tryggja eigi öryggi starfsmanna og almennra borgara, hvernig eigi tryggja heilbrigðisþjónustu og hvernig tryggja eigi að vistun á lokaðri réttargeðdeild sé ekki lengri en nauðsyn krefur vegna sjúkdómsins.

Það var því mikilvægt sem þeir gerðu saman, fyrrverandi ráðherra Sighvatur Björgvinsson og landlæknir, að höggva á þann hnút sem verið hafði í stjórnsýslu okkar. Ábyrgðinni var velt á milli kerfa, dómskerfisins og heilbrigðisþjónustunnar. Frammi fyrir því stöndum við nú og ég tel mjög mikilvægt að meta það út frá faglegum sjónarmiðum og alþjóðlegum skuldbindingum sem við höfum undirgengist, eins og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, um að velja staðsetningu.

Verið hafa miklir fordómar gegn geðsjúkdómum. Þeir hafa minnkað, sem betur fer, en ósakhæfir brotamenn (Forseti hringir.) eru mjög veikir einstaklingar og það þarf að kalla eftir samábyrgð okkar allra milli stjórnsýslu, heilbrigðis- og dómskerfisins.