140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ósakhæfir fangar á Íslandi og aðbúnaður þeirra fyrr og nú.

[11:26]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að taka undir þakkir til málshefjanda og þátttakenda í umræðunni af því að það er mikils vert að líta til fortíðar og læra af henni um leið og hugað er að því hvernig við viljum koma þessum málum fyrir í framtíðinni. Aðbúnaður og meðferð geðsjúkra afbrotamanna hefur tekið stakkaskiptum frá því fyrir örfáum áratugum. Þar voru þáttaskil með tilkomu réttargeðdeildarinnar á Sogni fyrir rétt um 20 árum og hefur það verið rakið í fjölmiðlum undanfarið, m.a. í viðtölum við fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Sighvat Björgvinsson, sem lyfti grettistaki og leiddi það mál til farsællar og góðrar niðurstöðu út úr mjög harkalegum deilum.

Það er rétt sem fram kom áðan, þetta er vandmeðfarin umræða, það er bæði erfitt og óheppilegt að þurfa að takast á um meðferð og úrræði fyrir geðsjúka afbrotamenn á pólitískum vettvangi. Alls konar sjónarmið vilja blandast inn í það og öðrum er brigslað um annarleg sjónarmið, en það sem skiptir mestu um starfrækslu slíkrar deildar eins og rætt er núna um varðandi Sogn, og við munum ræða hérna á eftir, er auðvitað velferð þeirra sem þar eru vistaðir og batahorfur þeirra. Árangurinn af starfinu er, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson ræddi alveg ljómandi vel áðan, að mörgu leyti undraverður á þessum 20 árum. Þess vegna þurfa að liggja mjög máttugar, faglegar forsendur fyrir ákvörðun um að breyta því fyrirkomulagi sem svo vel hefur reynst. Auðvitað skiptir þar mestu hvernig gengur og hvernig er staðið að aðbúnaði þessa fólks. Það stangast nefnilega á við áætlanir um að flytja réttargeðdeildina frá Sogni, við niðurstöðu starfshóps í þessum málum fyrir fimm árum sem komst að því að heppilegast væri að halda þessu áfram. En það ræðum við betur á eftir.