140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

réttargeðdeildin að Sogni og uppbygging réttargeðdeildar.

[11:45]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda umræðuna. Fyrir réttum 20 árum stóð mikill styrr um byggingu og staðsetningu réttargeðdeildar. Áður höfðu ósakhæfir sjúklingar verið vistaðir á réttargeðdeildum á Norðurlöndum, einkum á Vestervik í Svíþjóð undir stjórn íslensks læknis. Urðu lyktir málsins þær að fyrir valinu, þegar menn fóru að skoða hvort hægt væri að færa þetta heim, varð Sogn í Ölfusi. Við valið á staðsetningunni var gengið gegn ráðleggingum eina menntaða réttargeðlæknis Íslands á þeim tíma sem sagði raunar upp störfum sem yfirlæknir réttargeðdeildarinnar í kjölfarið.

Þá kom upp þessi faglegi ágreiningur sem ég var að minnast á áðan sem er ekki geðþóttaákvarðanir heldur var slagur á þeim tíma um hvað hentaði best þessum einstaklingum. Á hinn bóginn hafði þáverandi forstöðumaður á Kleppi þá afstöðu að meðferð geðsjúkra og ósakhæfra afbrotamanna færi alls ekki saman, þ.e. að fyrst og fremst ætti að líta á ósakhæfa afbrotamenn sem afbrotamenn en ekki sem sjúklinga.

Fyrir 20 árum var það einnig enn viðtekið að gott gæti verið að staðsetja réttargeðdeildina úti í sveit fjarri mannabyggðum, meðal annars lágu þar að baki þær skoðanir að umhverfið væri mannbætandi og að öryggissjónarmiðum væri betur mætt með fjarlægð frá þéttri byggð. Síðan þá hafa öll nálæg lönd fallið frá þessari stefnu og af faglegum, öryggislegum og rekstrarlegum ástæðum flytjast nú réttargeðdeildir inn á eða í næsta nágrenni við almennar geðdeildir og þannig hefur þróunin verið á þessum síðustu 20 árum.

Tilkynnt var um flutning réttargeðdeildarinnar frá Sogni að Kleppi í október. Segja má að með þeirri ákvörðun hafi loks verið stigið það skref sem faglegir stjórnendur og velunnarar vistmanna þar hafa beðið eftir, enda lengi legið fyrir óskir um þennan flutning. Með flutningnum yrði öryggi þjónustunnar bætt sem og meðferð skjólstæðinga deildarinnar. Þá sé aukin geta til að taka á móti þeim einstaklingum sem dæmdir eru til meðferðar á réttargeðdeild og um leið, sem auðvitað má ekki gera lítið úr þó það eigi ekki að vera aðalatriðið, getur rekstrarkostnaður lækkað til lengri tíma um um það bil 45 millj. kr. á ári.

Til grundvallar þessu faglega mati á fýsileika flutningsins lá rökstuðningur og ástæða er til að halda til haga að Evrópunefnd um varnir gegn pyntingum og ómannúðlegri meðferð gerði þegar árið 1999, í skýrslu sinni, athugasemdir við Sogn og taldi að heppilegra gæti verið til lengri tíma að flytja þjónustuna til Reykjavíkur til að bæta faglegt starf. Geðhjálp gerði skýrslu í apríl 2008 þar sem miklar áhyggjur voru látnar í ljósi af vanvirðingu, valdníðslu og vöntun á faglegri meðferð.

Árið 2008 lét þáverandi heilbrigðisráðuneyti vinna álitsgerð um Sogn eins og hér hefur komið fram, um aðstæður þar. Páll Matthíasson, þáverandi yfirlæknir á réttar- og gjörgæsludeild í London og núverandi framkvæmdastjóri geðsviðs LSH, vann það álit. Í framhaldinu varð raunar sú breyting, sem kom fram fyrr í umræðunni, að yfirstjórnin á Sogni var færð frá heilbrigðisstofnunum á Suðurlandi yfir til geðdeildarinnar á Landspítalanum. Þá hafði geta stofnunarinnar til að sinna þessu verkefni stöðugt verið í faglegri skoðun. Sérstakt mat var gert af faglegum stjórnendum Sogns í byrjun árs 2011 með aðkomu landlæknis og varð niðurstaða sem fyrr að nauðsynlegt væri að flytja starfsemi deildarinnar til Reykjavíkur. Skilaði framkvæmdastjóri geðsviðs velferðarráðherra minnisblaði þess efnis í janúar, löngu áður en við fórum í þessa umræðu um sparnað.

Draga má niðurstöðu þessara aðila saman í að mælt var með flutningi á Klepp af faglegum sjónarmiðum og af mannúðar- og rekstrarlegum sjónarmiðum og hefur ákvörðuninni verið fagnað af Geðhjálp, fagdeild geðhjúkrunarfræðinga og fleiri aðilum. Meginástæður flutningsins eru þær, sem ég hef áður tæpt á, að samhliða þeim verði einnig umtalsverður fjárhagslegur ávinningur. En þess má geta, af því að spurt er um upphæðir í þessu samhengi, að það er rétt að menn töluðu um 45 millj. kr. þegar allt væri komið til. Stofnkostnaðurinn á Kleppi er, eins og réttilega hefur verið nefnt hér líka, 74 millj. kr. en ljóst er að hann vinnst upp á mjög skömmum tíma og ef það gengur eftir að menn geta selt húsnæðið á Sogni þá mun það flýta fyrir að ná þessu yfir.

Spurt var í opnun á þessu máli hvort um væri að ræða framtíðarlausn, með því að færa þetta inn á Klepp. Því svaraði Landspítalinn mjög afdráttarlaust já. Þótt ýmsar aðrar hugmyndir hafi verið uppi þá er þarna um að ræða framtíðarlausn og miklu betri aðstöðu en verið hefur á Sogni auk þeirrar faglegu þjónustu sem hægt er að veita í samrekstri við þá deild sem þar er fyrir. Þess vegna hef ég stutt að þessi breyting eigi sér stað, af öllum fyrrnefndum ástæðum.