140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

réttargeðdeildin að Sogni og uppbygging réttargeðdeildar.

[12:00]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er nefnilega rétt sem hefur komið fram í umræðunni í dag að hún er vandmeðfarin. Það er ákaflega auðvelt að gera hana tortryggilega á hvorn veginn sem er. Andmæli okkar, margra þingmanna úr mörgum flokkum og mörgum kjördæmum, við flutningi og krafa okkar um frestun hans þar til fagleg úttekt á rekstri og reynslu af 20 ára starfi réttargeðdeildarinnar liggur fyrir er mjög málefnaleg nálgun í þessu máli. Það sem liggur afstöðu okkar til grundvallar, og er leiðarstefið, er reynslan af rekstri réttargeðdeildarinnar á þessum 20 árum eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson rakti ljómandi vel. Á 19 árum hafa 50 sjúklingar verið lagðir inn og 44 útskrifaðir með mjög góðum árangri.

Væri reynslan ekki góð hefði álit hins faglega starfshóps fyrir einungis fimm árum verið annað en það var, þ.e. að byggja við deildina. Allir heilbrigðisráðherrar á þeim tíma studdu það álit að bæta við 20 rúma deild og að starfsemin yrði áfram á Sogni með viðbyggingu við húsakostinn. Það var mjög afdráttarlaus niðurstaða faglegs starfshóps og úttektar á rekstrinum og stöðunni þá og áður en endanleg ákvörðun verður tekin viljum við sjá aðra úttekt, óháða, sem annaðhvort styður þessa eða kemst að annarri niðurstöðu þannig að ákvörðunin verði byggð á faglegum forsendum.

Auðvitað erum við öll sammála um að það eina sem skiptir máli sé að velferð sjúklinganna, hinna geðsjúku afbrotamanna sem þarna eru vistaðir, verði höfð í öndvegi og fyrirrúmi og að umönnun við þá sé með besta mögulega móti. Það er líka það sem blasir við í rekstrinum í dag. Árangurinn af starfsemi réttargeðdeildarinnar virðist vera framúrskarandi góður og þess vegna spyr maður: Er eitthvað unnið með því að flytja hana í burtu þó að menn telji mögulegan en þó afar takmarkaðan fjárhagslegan ávinning af því? Það skiptir bara engu máli. (Forseti hringir.) Það eru hinar faglegu forsendur sem skipta öllu máli og þess vegna viljum við fresta flutningnum þar til fagleg úttekt hefur átt sér stað.