140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

réttargeðdeildin að Sogni og uppbygging réttargeðdeildar.

[12:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Er skynsamlegt að skipta um skoðun í þessu máli og styðja við að starfsemi Sogns verði lögð af? Ég hef komist á þá skoðun að þeir sem eru velunnarar ósakhæfra fanga og fagaðilar hljóti að vita betur en ég. Kallað er eftir að úrræði fyrir ósakhæfa fanga sem þurfa á meðferð að halda séu bæði mannúðlegri og heilsteyptari og verði til þess að flýta fyrir bata.

Sú þróun sem á sér stað í úrræðum í þessum vandasama málaflokki er vissulega til bóta. Ég tek undir að mér finnst mikilvægt í ljósi nýja Íslands að fram fari fagleg úttekt áður en til þessarar lokunar kemur. Síðan bendi ég jafnframt á að víða er pottur brotinn varðandi stuðning við aðstandendur geðsjúkra.

Loks langar mig að benda á þetta nýyrði, geðfatlaðir, sem ég kann alls ekki við því að það þýðir að viðkomandi getur aldrei orðið heill að nýju, geðsjúkur þýðir að maður getur orðið heill að nýju.