140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

réttargeðdeildin að Sogni og uppbygging réttargeðdeildar.

[12:13]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur verið málefnaleg og vil taka fram strax í upphafi að þó að menn hafi gagnrýnt hv. þingmenn Suðurkjördæmis fyrir að taka þetta mál upp finnst mér ekkert athugavert við það. Það er eðlilegt og sjálfsagt að þeir fylgi málinu eftir og fari með það fyrir nefndir eins og gert hefur verið og leiti upplýsinga um með hvaða hætti er staðið að málum.

Þegar menn ræða um að ekkert samráð hafi verið haft við starfsfólk verður að taka það fram að fagfólkið á Sogni tekur þessa ákvörðun. Allir þeir sem leiða Sogn, hafa verið þar og koma frá Landspítalanum eru að taka þessa ákvörðun. Þetta eru þeirra tillögur.

Varðandi skýrsluna sem hér hefur ítrekað verið rædd vantaði í þá umræðu, og ég held að það sé talan sem hv. þm. Árni Johnsen nefndi, að kostnaðurinn við endurbygginguna á Sogni hljóp á hundruðum milljóna. Það liggur fyrir og er komið langt með framkvæmdir varðandi breytingar þar sem áætlað er að þetta verði 74 milljónir og plús flutninginn upp á 3 milljónir þannig að menn reikna með að ná því. Það er líka til mikils að vinna ef við getum náð tvennu í einu, að bæta faglegu þjónustuna og gæta hagræðingar.

Ég ætla alls ekki að gera lítið úr því að gott starf hafi verið unnið á Sogni. Þar hefur verið ágætt og vel þjálfað starfsfólk og vonandi nýtist það að einhverju leyti í framhaldinu á nýjum stað.

Varðandi árangurinn er hann ekki eins afdráttarlaus og hér er sagt. Menn segja að enginn hafi komið inn aftur, en hvað varð um þessa einstaklinga? Ég vona að við fáum skýrslu um það fljótlega þannig að menn geti þá haft uppi á borðinu þá þætti sem þar voru til skoðunar. Það eru fagleg rök fyrir þessari nýju réttargeðdeild. Aðbúnaður fyrir sjúklinga verður betri, það er aukið öryggi starfsmanna og sjúklinga, aukin geta til að sinna lögboðnu hlutverki og það eru menningarrök sem varða það að hafa tengingu við fagfólkið, vera í nánu samstarfi við nærumhverfið og samnýta þá þjónustu sem fyrir er á Kleppi. (Forseti hringir.) Að öðrum kosti hefði ég aldrei stutt þessa breytingu en ég tel að hún verði til heilla. Hún er ekki átakalaus og það er auðvitað full ástæða til að skoða alla þættina (Forseti hringir.) en ég held að við eigum að fylgja þessu máli til enda.