140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[12:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það sem ég benti á var að mér fannst hæstv. ráðherra fara bratt í umræðuna af því að hún ræddi um fólk sem skrifaði umsögnina og hélt því fram að það væri pólitískt sem þar er skrifað. Það fólk getur ekki varið sig hér. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég er ekki að leggja mat á það hvort þetta er rangt eða rétt og hvor hefur rétt fyrir sér. Ég er ekki að leggja mat á það. En ég gagnrýni hæstv. ráðherra fyrir að fara fram með þessum hætti gagnvart embættismönnum sem geta ekki varið sig hér og þá hlýtur það að vera, eða ég geng út frá því að minnsta kosti, að þeir aðilar hafi þá einhver mótrök sem þeir geta ekki fært fram hér í þingsal þegar verið er að ræða þetta mál. Þess vegna finnst mér mjög óeðlilegt hvernig þetta hefur gerst, en ég skil hins vegar þær athugasemdir og það sem hæstv. fjármálaráðherra gerir, að hann sé ekki með einhverjar skipanir til undirmanna sinna. Það er mjög skiljanlegt og eðlilegt. En ég geri alvarlegar athugasemdir við það að þegar farið er fram með þessum hætti og mjög stór orð, að mér finnst, höfð um einstaka embættismenn um að þeir séu með pólitískar skoðanir sem móti vinnu þeirra, þá hlýt ég að spyrja mig: Er það þá svo í öllum málum? Er hægt að ganga út frá því með þá embættismenn sem gefa umsögn um lagafrumvörp, sem ég les mjög vandlega á hverjum tíma, að ég geti þá ekki treyst því hér eftir að unnið sé faglega?