140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[12:54]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir framsögu hennar og þá tillögu sem liggur hér til meðferðar. Ég fagna þessu framtaki og nálgun mín í þessu verkefni er að við beitum þeim tækjum og tólum sem við höfum til að styrkja iðngrein sem er vaxandi, skilar miklum tekjum og arði til samfélagsins.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur metið efnahagsleg áhrif þessara laga og áhrif þeirra á ríkissjóð og hefur komist að því að ríkissjóður ber að öllum líkindum ekki byrði vegna endurgreiðslnanna þar sem skatttekjur ríkissjóðs vegna kvikmyndagerðar eru hærri en sem nemur endurgreiðslunum. Þetta finnst mér algert lykilatriði í málinu. Ofan á þetta getum við svo rætt ítarlega önnur áhrif sem felast í þessari endurgreiðslu, svo sem til kynningar og til stuðnings ferðaþjónustu í landinu. Það eru óbein áhrif.

Ég mundi gjarnan vilja eiga orðaskipti við ráðherra um hvort hér sé eitthvert módel sem væri hægt að færa yfir á aðrar greinar vegna þess að ég tel að í gegnum skattkerfið séum við að kalla fram mikla skilvirkni í stuðningi við atvinnulífið til að styðja við þær atvinnugreinar sem eiga mikla vaxtarmöguleika. Við sjáum að víða um heim eru stjórnvöld að beita skattalegum hvötum til að styðja við vaxtarfyrirtæki, til að styðja við rannsóknar- og þróunarstarf, til að laða til sín fyrirtæki og til að laða til sín störf. Þannig er skattalegum hvötum beitt til að styrkja atvinnulífið og ekki síst styðja við efnilega sprota sem geta svo smátt og smátt gert gagn og staðið undir störfum sjálfbært til framtíðar, því að ég held að með því að hjálpa fyrirtækjunum fyrstu skrefin getum við stuðlað að sjálfbæru atvinnulífi.