140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[13:00]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna kom hv. þingmaður við viðkvæman blett á þeirri sem hér stendur vegna þess að ég hef alltaf litið öfundaraugum til Kanada. Þeir hafa náð gríðarlega góðum árangri akkúrat á þessu sviði og ég tel að við eigum að horfa þangað í meira mæli. Þeir ganga meira að segja svo langt að þar eru fylkin að keppa sín í milli og bjóða mjög hagstæð skilyrði fyrir fyrirtæki í uppbyggingu.

Það er ansi blóðugt fyrir okkur hér á landi ef við erum með gott kerfi fyrir upphafsferil lítilla fyrirtækja, upphafsferil hugmynda í gegnum Tækniþróunarsjóð og annan stuðning sem hér hefur verið nefndur, að horfa síðan á eftir þeim fyrirtækjum úr landi þegar þau eru vaxin úr grasi til landa þar sem skilyrði eru hagstæð.

Þess vegna er það rétt, og ég tek undir með hv. þingmanni, að við eigum á öllum tímum að horfa mjög gagnrýnin á okkur sjálf þegar kemur að þessum málum og vinna að því á hverju einasta ári að gera betur og það tel ég að sé okkar verkefni.