140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[13:01]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa frásögn. Ég verð að taka undir það að það sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra um umsögn fjárlagaskrifstofunnar hlýtur að vekja okkur þingmenn til umhugsunar, ekki bara gagnvart þessu frumvarpi heldur kannski gagnvart frumvörpum yfirleitt, með hvaða hætti hún er fram sett. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram á bls 3. að við gerð frumvarpsins var haldinn fundur með fjármálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Kvikmyndamiðstöð Íslands og farið var yfir málin. Maður hlýtur því að undrast það í ljósi þess að hæstv. iðnaðarráðherra og þeir sem að frumvarpinu komu hafa lagt sig í líma við að kalla til jafnt mennta- og menningarmálaráðuneytið sem fjármálaráðuneytið til að kynna hugmyndir að þessu frumvarpi og þær breytingar sem hér eiga sér stað að engu að síður kemur þessi umsögn frá fjárlagaskrifstofunni sem er að mínu mati, frú forseti, algjörlega með endemum. Ég ætla ég ekki að leggja mat á hvort hún er rétt eða röng en hún er algjörlega með endemum vegna þess að ekkert í henni styður frumvarpið, ekkert.

Fyrir okkur sem hér sitjum hlýtur það að vera í hæsta máta óeðlilegt og í hæsta máta sérkennilegt fyrir þingmenn að taka afstöðu til frumvarpsins því að ekki sitja allir í þeirri nefnd sem frumvarpinu verður vísað til. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki rétt að þetta frumvarp fari til að minnsta kosti þriggja nefnda, þ.e. til atvinnuveganefndar, til allsherjar- og menntamálanefndar og til fjárlaganefndar, þannig að sem flestir komi að og geti heyrt að minnsta kosti sjónarmið fjárlagaskrifstofunnar með frumvarpinu? Ég tek undir, frú forseti, það er mikilvægt fyrir okkur að styrkja kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi eins og verið er að gera hér og lagt var til með lögunum frá 1999, (Forseti hringir.) en það verður erfitt fyrir þingmenn að meta stöðuna miðað við það sem stendur hér frá fjárlagaskrifstofunni.