140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[13:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Frá árinu 2006 hefur eitt af lögbundnum hlutverkum Íslenskrar málnefndar verið að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin hefur síðan sent frá sér slíka greinargerð fjórum sinnum í tæka tíð fyrir fæðingardag Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember og fjallar um nýjan þátt hverju sinni. Þetta eru merkilegar ályktanir, ágætlega rökstuddar og vel samdar, koma við öllum sem tala íslensku og eru til marks um ágætan árangur af málræktarstarfi Alþingis og ríkisstjórna síðustu ára, ásamt íslenskri málstefnu sem málnefndin samdi og þingið samþykkti. „Enn þá er efndanna vant þegar heitið er komið“, eins og Jón Vídalín sagði, úr lögunum frá því í vor nr. 61, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Forseti. Ég legg til að við tökum upp þá venju að ræða árlega um stöðu tungunnar á grunni þessarar ályktunar frá Íslenskri málnefnd og ég held að rétti tíminn til þess sé um miðbik nóvembermánaðar í tengslum við viðburði og hátíðir sem fram fara á fæðingardegi Jónasar, degi íslenskrar tungu. Þá umræðu virðist hægast að skipuleggja samkvæmt 52. gr. þingskapalaga þannig að ráðherra menningarmála legði ályktun málnefndarinnar fram sem skýrslu til Alþingis.

Ég beini þessu hér með til forseta og til mennta- og menningarmálaráðherra, hæstvirtra beggja, til umhugsunar og ákvörðunar.

Aftur að ályktuninni um stöðu tungunnar 2011. Í ár hafa málnefndarmenn beint sjónum að lestrarkunnáttu barna og bóklestri. Kannanir sýna að það dregur úr áhuga og færni hjá börnum til lestrar. Þetta gerist hjá sjálfri bókaþjóðinni, einmitt árið sem hún var heiðursgestur bókamessunnar góðu í Frankfurt, jafnvel þótt ekkert lát sé á bókaútgáfu eins og við verðum ágætlega vör við þessar vikurnar. Í nýlegri könnun um lestrarvenjur 15 og 16 ára unglinga er meðal annars spurt um bækur sem þeir lesi sér til skemmtunar, þ.e. einkum umfram skólabækurnar. Hlutfall íslenskra unglinga sem aldrei gera þetta, lesa aldrei neitt sér til skemmtunar, er hærra en Evrópumeðaltalið þótt ótrúlegt sé. Það er 23%, næstum fjórðungur. Þetta er auðvitað alvarlegt, ekki síst í ljósi þeirrar niðurstöðu annarra fræðimanna að lesskilningi hrakar með minni lestri og lesskilningur varðar síðan almenna hæfni til leiks og starfa. Minni bóklestur og þar með minni þjálfun og minni færni í íslensku getur þannig leitt til þess að börnum gangi verr í námi og verr við almenna lífsleikni. Þá er skammt í félagslegar tengingar, en ýmsir þykjast nú greina að á Íslandi nútímans sé að verða til nýr hópur af fátæku fólki sem stendur frammi fyrir þröskuldum og hindrunum af menningarlegum toga, ekki síður en efnalegum.

Íslensk málnefnd nefnir í ályktun sinni margt sem vel er gert í þessum efnum jafnframt hinu sem á vantar. Á degi íslenskrar tungu nú í nóvember dróst athygli alveg sérstaklega að menntun kennara í þessu sambandi vegna þess að um hana er rætt í ályktuninni en ekki síður vegna þess að Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir flutti um þetta hvasst erindi á málræktarþingi. Staðan er af einhverjum undarlegum ástæðum sú, forseti, að kennari getur útskrifast frá sjálfum Háskóla Íslands, á því sviði sem áður hét Kennaraháskóli Íslands, án þess að hafa lagt neitt á sig við íslenskunám. Ég veit vel að um þetta stendur talsverð deila á menntavísindasviði, en ég tel líka að hlutur íslensku í kennaramenntun sé ekki einkamál þeirra sem á hverri stundu starfa á þessu sviði í háskólanum. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra á að taka af skarið í þessum efnum og fjallar vonandi sérstaklega hér á eftir um samskipti sín við ráðamenn kennaranámsins í Háskóla Íslands.

Forseti. Íslensk tunga er sem betur fer við góða heilsu. Hún lifir samt ekki nema við viljum það. Eitt af því skrýtna við tungumál er að það tekur bara eina kynslóð að deyja. Íslenskan er arfur okkar sem við verðum að flytja fram til heiðurs hinum horfnu í landinu og til grundvallar og lífsfyllingar þeim sem eftir koma. Íslenskan er þess vegna okkar mál í fleiri en einum skilningi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)