140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[13:54]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég vil einnig þakka honum fyrir að hafa verið óþreytandi að tala máli íslenskunnar í þessum sal. Ég vil taka undir með honum um að við hefjum umræðu hér árlega um stöðu íslenskunnar. Mér finnst við hæfi að miða þar við fæðingardag Jónasar Hallgrímssonar.

Það er alveg ljóst og ætti að vera flestum kunnugt sem hafa farið í gegnum langskólanám eða hafa haft áhuga á því að lesa og mennta sig að til þess að ná árangri í hvaða fagi sem er skiptir gríðarlega miklu máli að hafa vald á sínu eigin móðurmáli. Það er lykillinn að tungumálanámi. Það er raunar lykillinn að öllu því námi sem við tökum okkur fyrir hendur að hafa traust tök á móðurmálinu. Það hlýtur því að vera rökrétt framhald þess þegar litið er til kennaramenntunar að þar eigi móðurmálið að hafa verðskuldaðan sess.

Ég vil því — af því að hæstv. menntamálaráðherra vildi hlusta eftir því sem fram kæmi í þessari umræðu — styðja hæstv. menntamálaráðherra í því að brýna forsvarsmenn kennaramenntunar til þess að móðurmálið fái það vægi sem því ber.

Ég vil einnig, af því að við gerum hér að umtalsefni lestur barna, varpa því fram til hugleiðingar hvort ekki væri fróðlegt að heyra hvernig lestri eldri kynslóða sé háttað í landinu og um mikilvægi foreldra þegar kemur að því að hvetja börn til bóklesturs. Það eru ekki einungis börnin sem þurfa að lesa, við þurfum að lesa alla okkar ævi og við þurfum að rækta íslenskuna alltaf. Það væri fróðlegt að fylgjast með því og fá upplýsingar um hvort íslenskunni hafi þá hrakað með þeim hætti hjá okkur sem eldri erum að við séum farin að lesa minna en áður var gert og hvað hægt sé að gera til að hvetja landsmenn alla til að rækta íslenskuna framtíðinni til heilla.