140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[14:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og hlakka til að hlusta á seinni hluta svars hans í seinna andsvarinu.

Ég spurði út í þær 8,5 milljónir til aðalskrifstofu menntamálaráðuneytisins til stefnumótunar og ef ég skil hv. þingmann rétt er til mikils að vinna ef skilningur ráðuneytisins mun aukast gagnvart þessari grein, skólanum og þeirri þekkingu, sem skilningsleysi hefur ríkt gagnvart í ráðuneytinu, þá telur hann þeim fjármunum vel varið.

Ég spyr af því að ég, eins og hv. þingmaður veit, sit í hv. fjárlaganefnd og ég sé nefnilega þessi merki á svo mörgum öðrum liðum. Þetta á ekki bara við um Kvikmyndaskólann, þetta á til að mynda við um það átak sem verið er að fara í, þ.e. að efla grænt hagkerfi, sem er allt í einu í forsætisráðuneytinu en mér fyndist eðlilegra að væri í iðnaðarráðuneytinu. Síðan eru 10 milljónir klipptar af því til að fara í umsýsluna á aðalskrifstofunni. Ég hef verið hugsi yfir því og spurði dálítið um það í hv. fjárlaganefnd.

Mér finnst að við verðum að passa að það fjármagn sem við viljum setja í ákveðnar greinar, alveg sama hvaða nafni þær nefnast, skili sér að fullu en ekki að sogaður verði hluti af því inn í stjórnsýsluna ef ekki er þörf á því. Auðvitað getur það verið í sumum tilfellum, en ég tel að fara þurfi mjög varlega í þetta.

Ég ítreka að það vakti sérstaka athygli mína að yfirumsjón og framkvæmd græna hagkerfisins og grænu starfanna skuli vera undir forsætisráðuneytinu. Það ætti auðvitað að mínu viti, það er mín skoðun, að vera í iðnaðarráðuneytinu svo að heildarsýn væri yfir það sem sneri að atvinnuuppbyggingu. En þetta er gert svona og það var ástæðan fyrir því að ég spurði um þetta sérstaklega. Mér fannst þetta líka hátt miðað við það framlag sem Kvikmyndaskólinn fær, 8,5 milljónir, miðað við það sem heildarframlögin eru, en ég hlakka til að heyra seinni hluta svars hv. þingmanns.