140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[14:26]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að ljúka við að svara seinni fyrirspurninni úr fyrra andsvarinu. Ég var búinn að nefna fyrri tekjustofninn í kvikmyndagerð sem er úthlutaður styrkur frá Kvikmyndasjóði. Ekki nóg með það, fái kvikmyndaframleiðandi styrk úr Kvikmyndasjóði hér heima opnast gáttir að sjóðum víðs vegar í veröldinni, einkum og sér í lagi í Evrópu að sjálfsögðu, svo að mjög líklegt er að þegar íslensk mynd er frumsýnd sé hún framleidd að meiri hluta til fyrir erlent fjármagn. Þetta er eins og bankahrunið nema þetta er löglegt. Við fáum peninga erlendis frá, (PHB: Erlendir skattgreiðendur.) — erlendir skattgreiðendur, alveg hárrétt, þetta er sjálfsagt löglegt en siðlaust, en þannig er þetta nú.

Hinn tekjustofninn eru þessar endurgreiðslur og ég fór yfir það áðan að mér finnst það vera góður díll fyrir íslensku þjóðina. Segjum að Ridley Scott, einn frægasti kvikmyndagerðarmaður heims fyrr og síðar, komi hingað og eyði hundruðum milljóna, að hann fái þá eitthvað pínulítið eða 20% til baka af hluta þess fjár sem afslátt fyrir að koma hingað í staðinn fyrir að fara til Noregs eða Nýja-Sjálands eða eitthvert annað þar sem líka er ósköp fallegt. Ég held því að hver króna sem varið er til kvikmyndagerðar komi með einum eða öðrum hætti inn í landið aftur. Til dæmis sér þýskur túristi eða amerískur ferðamaður sem hefur séð íslenska mynd í sjónvarpi að á Íslandi býr tiltölulega siðuð þjóð og að þar þurfi hann ekki að óttast um líf sitt.

Þetta framlag íslenskrar kvikmyndagerðar fær kvikmyndagerðin aldrei goldið nema hér sitji iðnaðarráðherrar sem hafa skilning á því hvernig peningar streyma fram og aftur um þjóðfélög og í augnablikinu höfum við slíkan iðnaðarráðherra og fyrir það er ég þakklátur vegna þess að það er ekki sjálfgefið.