140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[15:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar og lyfjalögum, þ.e. greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði. Þetta er mjög jákvætt frumvarp. Sérstaklega ber að fagna því að með fylgir reglugerð þar sem kveðið er á um hvernig þessu skuli háttað. Hins vegar gæti þetta verið jákvæðara ef allur kostnaður væri tekinn með, en það er það sem ég ætla að spyrja ráðherrann um.

Í fyrsta lagi: Hvað gerist þegar kerfið byrjar núna 1. janúar? Munu þá allir borga lyfin sín upp að þessum mörkum sem talað er um, 45 þús. kr., þannig að ríkissjóður borgi engin lyf í janúar og febrúar? Ég hef ekki séð það í frumvarpinu. Það má samt vel vera að einhvers staðar sé ákvæði um að gömul reynsla komi þar til, reynsla þeirra sem hafa borgað lyf í nóvember og desember á þessu ári.

Í öðru lagi spyr ég: Var annar kostnaður við heilbrigðisþjónustu skoðaður í þessari nefnd? Sumir sjúklingar borga ekkert fyrir lyfin sem eru þá ókeypis, þ.e. lyf sem eru beint tengd sjúkdómi eins og krabbameinslyf, en menn borga þá að sjálfsögðu fyrir önnur lyf sem eru ótengd sjúkdómnum. Síðan borga menn alls konar annan kostnað sem getur orðið umtalsverður, vegna sérfræðilækna og alls konar tækja og tóla sem menn þurfa að fara í.

Svo eru aðrir sjúklingar sem nota bara lyf, þurfa ekki á sérfræðilæknum að halda og þurfa lítið að fara í rannsóknir og slíkt. Gigtarsjúklingar skilst mér að séu þar á meðal þó að ég þekki það ekki nákvæmlega. Spurningin er: Getur ekki myndast ný mismunun í því að nú borga allir jafnt fyrir lyfin en mjög mismunandi fyrir þjónustuna af því að hún er mismunandi?

Svo ætla ég að spyrja í hinu andsvarinu um börnin.