140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[15:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, þetta mun jafna lyfjakostnað milli sjúklinga. Það er að sjálfsögðu réttlætismál því að það er nokkuð sama fyrir sjúklinginn fjárhagslega af hvaða sjúkdómi hann þjáist og það ber að vernda hann gegn fjárhagslegum útgjöldum til að þau verði ekki óbærileg.

Það sem vantar þá inn í þetta er annar heilbrigðiskostnaður sem getur orðið umtalsverður, sérstaklega þegar sjúkrahúsin eru farin að nota göngudeildir meira. Meira að segja skurðaðgerðir taka örstuttan tíma og menn ganga svo heim en þurfa að koma reglulega í viðtal á spítalann og þá er tekið gjald í hvert skipti. Það getur orðið umtalsvert. Ég er hræddur um að nýr ójöfnuður myndist.

Varðandi það hvenær þetta taki gildi sé ég ekki annað en að lögin öðlist gildi 1. janúar og þá fari þetta að virka. Spurningin er: Hvenær hófst tímabilið hjá hverjum og einum sem þarf lyf í janúar og febrúar og mars? Hófst það þegar lögin tóku gildi eða hófst það fyrr og er þá bakreiknað? Ég sá ekki lausn á því en samt má vel vera að hún sé til. Hv. velferðarnefnd sem ég sit í finnur væntanlega á þessu einhverja skynsamlega lausn þannig að ríkissjóður borgi eitthvað fyrir lyf í janúar og febrúar, en sé ekki algjörlega stikkfrí í þeim efnum.

Börnin eru metin sem einn hópur innan fjölskyldunnar. Þetta var rætt mikið í þeirri nefnd sem ég sat í á sínum tíma, að það væri eðlilegra að tengja börnin við annað hvort foreldranna vegna þess að við erum að horfa á heimilisútgjöld. Ef hjón með eitt barn lenda í hámarkinu, öll þrjú, er það dágóður peningur og það getur orðið ansi mikið högg, sérstaklega ef þetta verður núna í janúar og febrúar. Ef lyfjakostnaður lendir á þeim öllum geta það (Forseti hringir.) orðið 120–130 þús. kr.