140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[15:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum. Ég held að það sé ástæða til að fagna þessu frumvarpi. Unnið var að því á síðasta þingi. Eins og hæstv. ráðherra sagði voru þær umsagnir og athugasemdir sem fram komu lagðar fram á því þingi og teknar til skoðunar og frumvarpið þá betrumbætt í þá veru eins og umsagnir ýmsar hverjar lögðu til sem og hv. heilbrigðisnefnd.

Það er rétt að fagna því í fyrsta lagi að megintilgangur þessa frumvarps er að koma á nýju greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði vegna lyfja. Það sem skiptir kannski meginmáli er að með því er verið að koma á jafnræði óháð sjúkdómum. Ég held að leggja verði verulega áherslu á það og halda því á lofti vegna þess að svo hefur ekki verið. Það hlýtur að skipta meginmáli þegar ríkið tekur annars vegar þátt með einum eða öðrum hætti í greiðslu á lyfjum að fólki sé ekki mismunað vegna þess sjúkdóms sem það einhverra hluta vegna hefur fengið. Ég fagna því að áherslan sé lögð á jafnræði í greiðsluþátttöku óháð sjúkdómum.

Mig langar líka, frú forseti, að leggja áherslu á annað sem ég tel að skipti verulegu máli. Hér er kveðið á um heimild Sjúkratryggingastofnunar til þess að reka lyfjagreiðslugrunn sem talinn er, eins og stendur á blaðsíðu 13 í frumvarpinu, „forsenda þess að breytt greiðsluþátttökukerfi sé skilvirkt. Lyfjagreiðslugrunnurinn mun til að mynda innihalda þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að reikna út greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og notenda við kaup á lyfjum.“

Þetta er því ekki aðeins til hægðarauka fyrir sjúkratryggingar heldur getur þetta líka verið til hægðarauka fyrir sjúklinginn til að geta sjálfur fylgst með því hvaða lyf hann er að taka og hvernig þeim er ávísað á hann. Þar að auki geta læknar fylgt því eftir hvernig lyfjum er ávísað til einstakra sjúklinga. Ég held, frú forseti, að þeir þrír þættir sem ég hef hér nefnt skipti verulegu máli.

Mig langar hins vegar í ljósi þess að við erum að ræða lyf almennt að velta þeirri spurningu upp við hæstv. velferðarráðherra Guðbjart Hannesson hvort ekki sé ráð samhliða þessu að fara í skoðun á stórum pakkningum og þeirri miklu sóun sem getur einmitt verið vegna þessara stóru pakkninga. Þegar sjúklingur er t.d. settur á lyf getur hann fengið allt að 100 töflum. Það kemur í ljós eftir að teknar hafa verið um það bil tíu töflur hvort aukaverkanirnar eru slíkar að skipta þarf um lyf hjá sjúklingnum og þá er pakkningunni með 90 töflum hent vegna þess að búið er að opna hana og þó að ekki sé búið að hrófla við nema kannski einu bréfi er öllu hent. Mætti ekki skoða hvort pakkningar í upphafi gætu verið minni á meðan verið væri að kanna hvernig lyfið verkar á sjúklinginn? Ég held og mér er sagt að það sé töluverð sóun á lyfjum og þar af leiðandi sóun peninga vegna þessara þátta.

Frú forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frumvarp. Ég sat í hv. velferðarnefnd sem vann og ræddi við menn og tók á móti umsögnum. Síðan hefur hæstv. velferðarráðherra fengið verkefnið í sínar hendur og lagfært. Ég tel að það sé af hinu góða. Við getum hins vegar alltaf gert betur. Næsta skref verður væntanlega að taka alla þjónustu við hina sjúku og greiðsluþátttöku sjúklings hvað það varðar hvar sem er í kerfinu. Ég held að það yrði fyrst og fremst gott til að auka kostnaðarvitund okkar notendanna og til að halda utan um fyrir hönd ríkisins hvernig peningum er varið í heilbrigðisþjónustu almennt.

Frú forseti. Ég tel að þetta frumvarp sé af hinu góða. Ég vona að hv. velferðarnefnd sem fær það til skoðunar fari í gegnum þá þætti sem hér hafa verið nefndir.