140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[15:25]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir orð hennar sem og hæstv. velferðarráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að veigamiklar breytingar á frumvarpinu hafi verið til góðs. Ég vil sérstaklega nefna að í lögunum, ef af verður, verður skýrt tekið fram að það muni vera og eigi að vera ólík greiðsluþátttaka þeirra sem eru sæmilegrar heilsu og hinna sem eru börn, öryrkjar eða lífeyrisþegar. Það tel ég mjög mikilvægt.

Það sem kveikti í mér að koma upp í andsvar við hv. þingmann var það sem hún sagði um kostnaðarvitundina og pakkningarnar. Vissulega er mikil sóun vegna pakkninganna. Mig langar að benda á í því sambandi að á Grænlandi eru öll lyf ókeypis. Afhending lyfja fer þannig fram að það eru nánast taldar ofan í sjúklingana þær töflur sem þeir þurfa beint á skrifborði læknisins í heilsugæslunni. Þar á ekki ein einasta tafla að fara til spillis. Þar er fullyrt að það margborgi sig að hafa þennan háttinn á fremur en þann sem viðhafður er hér. Við getum líka séð hvernig Færeyingar, frændur okkar, fara að með lyfjaskömmtun. Það mun vera eitt apótek hér á landi sem hefur vélbúnað eða tækjabúnað til að búa til dagskammta og jafnvel klukkutímaskammta, þrjá skammta yfir daginn, af lyfjablöndum, ólíkum töflum, sem menn þurfa að taka til hægðarauka en ekki síst til sparnaðar.

Þess vegna vil ég taka undir sem hv. þingmaður sagði. Þetta eru hlutir sem við eigum að skoða til sparnaðar í kerfinu. Þetta frumvarp er ekki til sparnaðar heldur til (Forseti hringir.) jöfnunar.